Kolbeinn í úrvalsliðinu

Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. Ljósmynd/AIK

Kolbeinn Sigþórsson er í liði umferðarinnar hjá sænska blaðinu Expressen fyrir frammistöðuna gegn Elfsborg í sænsku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Kolbeinn skoraði tvö af mörkum AIK í 3:0 sigri gegn Elfsborg. Þetta voru fyrstu mörk hans fyrir sænska liðið og fyrstu mörk hans fyrir félagslið í þrjú ár eða frá því skoraði í bikarleik með franska liðinu Nantes.

Kolbeinn og félagar verða í eldlínunni á Friends Arena í Stokkhólmi í kvöld en þá mæta þeir armenska liðinu Ararat í síðari viðureign liðanna í 1. umferð undankeppni Meistaradeildarinnar. AIK tapaði fyrri leiknum í Armeníu fyrir viku, 2:1.

Komist AIK áfram má reikna með að liðið mæti slóvenska liðinu Maribor sem er 3:0 yfir á móti Íslandsmeisturum Vals en síðari leikurinn fer fram í Slóveníu í kvöld. Falli AIK hins vegar úr leik í Meistaradeildinni í kvöld bíður liðsins leikur gegn Lincoln Red Imps frá Gíbraltar í 2. umferð Evrópudeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert