Löngu vitað að Neymar vildi fara

Neymar óskaði eftir sölu frá PSG í síðustu viku.
Neymar óskaði eftir sölu frá PSG í síðustu viku. AFP

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri París SG í Frakklandi, segir að það sé langt síðan hann vissi af því að Brasilíumaðurinn Neymar vildi yfirgefa félagið. 

Franska félagið tilkynnti það í vikunni sem leið og Neymar hafði óskað eftir því að vera seldur í sumar en hann hefur verið sterklega orðaður við bæði Real Madrid og Barcelona undanfarnar vikur. Barcelona mun hafa gert formlegt tilboð í hann fyrir helgina.

„Það eru alltaf vonbrigði þegar leikmenn mæta seint til æfinga. Við erum hins vegar með allt uppi á yfirborðinu núna og við getum unnið saman eins og sannir atvinnumenn,“ sagði Tuchel í samtali við franska miðilinn RMC. „Ég vissi það fyrr í sumar að hann vildi fara, áður en Ameríkubikarinn hófst en það er á milli Neymars og PSG.“

„Ég er þjálfari liðsins og hann er leikmaður liðsins. Á meðan við deilum sama búningsklefa þá mun ég halda áfram að vinna með honum. Við höfum ekkert rætt þetta okkar á milli og ég á ekki von á því að við munum gera það. Þetta er á milli leikmannsins og félagsins og hefur ekkert með starf mitt að gera,“ sagði Tuchel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert