Eins að dæma hjá körlum og konum

Stephanie Frappart dæmir leik Chelsea og Liverpool á morgun.
Stephanie Frappart dæmir leik Chelsea og Liverpool á morgun. AFP

Franski dómarinn Stephanie Frappart mun dæma leik Liverpool og Chelsea í Stórbikar Evrópu í fótbolta í Istanbúl annað kvöld. Verður hún fyrsta konan til að dæma karlaleik þar sem bikar er undir hjá UEFA. 

Henni til aðstoðar verða landa hennar Manuela Nicolosi og hin írska Michelle O'Neill, sem dæmdu úrslitaleik HM kvenna í Frakklandi með henni í síðasta mánuði. Frappart mun dæma í frönsku A-deild karla í vetur og er hún komin í fremstu röð í heimalandinu. 

Hún segir ekki mikinn mun á því að dæma hjá konum og körlum. „Fótbolti er eins hjá konum og körlum. Dómgæslan er eins og ég mun dæma eins og ég hef gert í kvennadeildinni. Ég hef dæmt í karladeildinni heima og ég er þjálfuð til að dæma svona leiki," sagði Frappart í samtali á heimasíðu UEFA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert