Kolbeinn Birgir til Dortmund

Kolbeinn Birgir Finnsson er genginn formlega til liðs við stórlið …
Kolbeinn Birgir Finnsson er genginn formlega til liðs við stórlið Borussia Dortmund. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolbeinn Birgir Finnsson er genginn til liðs við þýska knattspyrnufélagið Borussia Dortmund en þetta staðfesti hans fyrrverandi félag Brentford á Twitter-síðu sinni í morgun. Kaupverðið á leikmanninum hefur ekki verið gefið upp en Kolbeinn hefur leikið með enska B-deildafélaginu Brentford frá árinu 2018 en hann hefur ekki spilað aðalliðsleik fyrir félagið.

Kolbeinn er aðeins 19 ára gamall en hann var lánaður til uppeldisfélags síns Fylkis í Pepsi Max-deildinni fyrr í sumar og lék með liðinu fyrri hluta tímabilsins. Hann kom við sögu í 13 leikjum með liðinu í úrvalsdeildinni þar sem hann skoraði tvö mörk. Kolbeinn hélt út í atvinnumennsku árið 2016 þegar hann samdi við hollenska liðið Groningen.

Ekki hefur verið gefið upp hversu langan samning Kolbeinn gerir við þýska félagið. Kolbeinn hefur verið fastamaður í öllum yngri landsliðum Íslands en hann á að baki tvo A-landsleiki fyrir Ísland og þá á hann að baki sex leiki fyrir U21 árs landsliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert