Elbasan er mikið vígi hjá albanska landsliðinu

Albanska landsliðið fyrir leikinn gegn Frökkum á Stade de France …
Albanska landsliðið fyrir leikinn gegn Frökkum á Stade de France á laugardagskvöldið. AFP

Frá árinu 2016 hefur albanska karlalandsliðið í knattspyrnu ekki getað leikið heimaleiki sína í höfuðborginni Tirana vegna endurbyggingar á þjóðarleikvanginum þar. Þeir hafa leikið ýmist í Elbasan, skammt suðaustan við Tirana, eða í Shkodër í norðurhluta landsins.

Litlu munaði að hægt yrði að spila leik Íslands og Albaníu í undankeppni EM í kvöld á nýja leikvanginum sem virðist stórglæsilegur að sjá utanfrá, en til stóð að það yrði vígsluleikur vallarins. Herslumuninn vantaði hinsvegar til þess að hægt yrði að ljúka verkinu sem hefur tafist umtalsvert en taka átti leikvanginn í notkun á síðasta ári. Leikurinn í kvöld fer því fram í Elbasan.

Stór munur er á gengi albanska liðsins eftir því hvar það hefur spilað og óhætt er að segja að Elbasan hafi reynst því afar góður heimavöllur. Þar hefur Albanía aðeins fengið á sig eitt mark í sex leikjum, eða frá tapi gegn Bosníu í vináttulandsleik, 1:2, árið 2017. Hinsvegar hefur liðið ekki skorað mark í fimm af þeim sex leikjum sem það hefur spilað í Shkodër. Frá 2016 hafa heimaleikir Albana farið þannig:

Í Elbasan:
2.9.2017 Albanía – Liechtenstein 2:0
26.3.2018 Albanía – Noregur 0:1
7.9. 2018 Albanía – Ísrael 1:0
10.10.2018 Albanía – Jórdanía 0:0
20.11.2018 Albanía – Wales 1:0
11.6.2019 Albanía – Moldóva 2:0

Í Shkodër:
31.8.2016 Albanía – Marokkó 0:0
5.9.2016 Albanía – Makedónía 2:1
9.10.2016 Albanía – Spánn 0:2
9.10.2017 Albanía – Ítalía 0:1
17.11.2018 Albanía – Skotland 0:4
22.3.2019 Albanía -  Tyrkland 0:2

Ekki útlit fyrir góða aðsókn

Leikvangurinn í Elbasan rúmar um 12 þúsund áhorfendur en rétt um fimm þúsund mættu þangað á síðasta heimaleik albanska liðsins, gegn Moldóvu. Í gær höfðu aðeins um tvö þúsund miðar verið seldir á leikinn þannig að ljóst er að albanskir knattspyrnuáhugamenn hafa tapað trúnni á að þeirra lið sé að fara að blanda sér í baráttuna um sæti á EM.

Íslenskt landslið hefur áður spilað á vellinum í Elbasan. Árið 1991 voru Ísland og Albanía saman í riðli í Evrópukeppni 21-árs landsliða og mættust í borginni. Albanar unnu 2:1-sigur í leik þar sem markvörður heimamanna náði að verja vítaspyrnu frá Steinari Adolfssyni. Valdimar Kristófersson skoraði mark íslenska liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert