Nýr leikvangur fyrir 70 milljónir evra

Nýi þjóðarleikvangurinn Arena Kombëtare. Fyrir framan er inngangur gamla leikvangsins, …
Nýi þjóðarleikvangurinn Arena Kombëtare. Fyrir framan er inngangur gamla leikvangsins, Qemal Stafa, sem er það eina sem eftir er af honum. Í baksýn sést í hótelið þar sem íslenska landsliðið dvelur fyrir leikinn í kvöld. mbl.is/Víðir Siguirðsson

Til stóð að leikur Albaníu og Íslands í undankeppni Evrópumóts karla í fótbolta sem fram fer í Elbasan í kvöld yrði leikinn á nýjum og stórglæsilegum þjóðarleikvangi Albana, Arena Kombëtare.

Gamli þjóðarleikvangurinn Qemal Stafa var rifinn árið 2016 til að rýma til fyrir nýja leikvanginum sem mun rúma 22.500 manns í sæti. Stórt hótel verður sambyggt leikvanginum en byggingin í heild á að hýsa margskonar íþróttaviðburði og einnig atburði ótengda íþróttum. Áætlað er að heildarkostnaður við bygginguna sé um 70 milljónir evra.

Nýi þjóðarleikurinn í Tirana er stórglæsilegt mannvirki.
Nýi þjóðarleikurinn í Tirana er stórglæsilegt mannvirki.


Ekki tókst að gera völlinn kláran í tæka tíð fyrir leikinn og hann verður því væntanlega tekinn í notkun á næsta heimaleik Albana í október. Íslenska landsliðið dvelur á hóteli við hlið vallarins nálægt miðborg Tirana og hefði því getað farið gangandi til leiks í kvöld í stað þess að ferðast með rútu í 35-45 mínútur til nágrannaborgarinnar Elbasan.

Erik Hamrén landsliðsþjálfari Íslands sagði aðspurður á fréttamannafundinum í Elbasan í gær að fjarlægðin til og frá Elbasan skipti engu máli fyrir undirbúning íslenska liðsins fyrir leikinn. Við því væri ekkert að gera og því væri það leyst eins vel og hægt væri. Hópnum hefði liðið vel á dvalarstað sínum í Tirana og það væri tilgangslaust að eyða orku í að velta öðru fyrir sér.

Qemal Stafa leikvangurinn í Tirana eins og hann leit út …
Qemal Stafa leikvangurinn í Tirana eins og hann leit út en hann var rifinn árið 2016.


Íslenska karlalandsliðið lék þrjá leiki á Qemal Stafa, sem bar nafn albanskrar þjóðhetju úr síðari heimsstyrjöldinni. Ísland tapaði þar 1:0 árið 1991 í undankeppni EM, tapaði 2:1 í vináttulandsleik árið 2004 en vann þar 2:1-sigur í undankeppni HM haustið 2012.

Elbasan Arena þar sem Ísland spilar í kvöld.
Elbasan Arena þar sem Ísland spilar í kvöld.


Í kvöld er leikið á Elbasan Arena sem rúmar 12.800 áhorfendur. Takmarkaður áhugi er fyrir leiknum hér í Albaníu vegna slæms gengis landsliðsins að undanförnu en það hefur tapað þremur af fyrstu fimm leikjum sínum í undankeppninni. Þegar undirritaður fór til Elbasan í gær til að sitja blaðamannafund og fylgjast með byrjun æfingar landsliðsins kom fram að einungis væri búið að selja um 2.000 miða á leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert