Endurkomusigur Blika á tékknesku meisturunum

Bergling Björg Þorvaldsdóttir skallar knöttinn í netið hjá Spörtu Prag …
Bergling Björg Þorvaldsdóttir skallar knöttinn í netið hjá Spörtu Prag í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik er í góðum málum eftir glæsilegan 3:2-sigur gegn Tékklandsmeisturum Sparta Prag í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í fótbolta á Kópavogsvellinum í kvöld. 

Byrjunin hjá Breiðabliki var afleit því strax á þriðju mínútu var Christina Burkenroad búin að skora. Hún fékk þá boltann í teignum, fékk tíma til að snúa og afgreiða boltann í hornið. Sonný Lára Þráinsdóttir virtist halda að boltinn væri á leiðinni framhjá og horfði á eftir honum fara rétt framhjá sér. 

Svar Breiðabliks var mjög gott og eftir langa sókn kom jöfnunarmarkið á 15. mínútu. Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir átti þá fallega fyrirgjöf, beint á kollinn á Berglindi sem skoraði með skalla af stuttu færi. 

Breiðablik var nálægt því að komast yfir á næstu mínútum og átti Berglind Björg m.a hörkuskot í slána eftir hálftíma leik og Kristín Dís Árnadóttir skalla rétt framhjá. Inn vildi boltinn ekki og Sparta Prag sterkari aðilinn síðustu tíu mínúturnar í hálfleiknum.

Það skilaði sér í öðru marki tékkneska liðsins og öðru marki Burkenroad. Karolína Krivská var þá á undan Sonný Láru í boltann eftir slaka hreinsun hjá Fjollu Shala og sendi fyrir á bandaríska framherjann sem skoraði í autt markið og var staðan í leikhléi 2:1. 

Seinni hálfleikurinn var mjög jafn framan af, en Breiðablik skapaði sér betri færi. Agla María Albertsdóttir átti t.a.m. tvö hættuleg skot með stuttu millibili sem Megan Dorsey í marki Sparta gerði vel í að verja. 

Berglind Björg fékk glæsilegt tækifæri til að jafna í 2:2 á 67. mínútu þegar hún slapp ein í gegn, en hún skaut beint á Dorsey í markinu, sem varði auðveldlega. Yfirleitt gerir Berglind mun betur í jafngóðum færum. 

Hún bætti upp fyrir það á 78. mínútu er hún skallaði glæsilega í netið úr teignum eftir fyrirgjöf Ástu Eirar Árnadóttur. Aðeins tveimur mínútum síðar kláraði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fallega úr teignum með hnitmiðuðu skoti og Breiðablik komst yfir. 

Mörkin slógu tékknesku meistarana út af laginu og þeir voru ekki líklegir til að jafna metin eftir það og Breiðablik á fína möguleika á að komast í 16-liða úrslit keppninnar. 

Síðari leikurinn fer fram í Prag á fimmtudaginn eftir viku. 

Breiðablik 3:2 Sparta Prag opna loka
90. mín. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (Breiðablik) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert