Hörður Björgvin gulltryggði sigur

Hörður Björgvin Magnússon skoraði.
Hörður Björgvin Magnússon skoraði. AFP

Hörður Björgvin Magnússon og samherjar hans hjá CSKA Moskvu unnu 2:0-útisigur á Tambov í rússnesku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Liðið er í þriðja sæti með 19 stig, einu stigi minna en toppliðin. 

Mörk CSKA komu seint í leiknum því staðan var markalaus þar til Kristijan Bistrovic skoraði á 84. mínútu. Hörður Björgvin gulltryggði svo 2:0-sigur með fallegu marki í uppbótartíma. 

Hörður fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi Tambov, sótti að teignum og skilaði boltanum í bláhornið fjær með föstu skoti. Markið var það fyrsta sem Hörður skorar á leiktíðinni. Arnór Sigurðsson lék ekki með CSKA í leiknum vegna meiðsla. 

Jón Guðni Fjóluson var allan tímann á varamannabekk Krasnodar sem fór upp í toppsætið með 4:2-sigri á Samara á heimavelli. Krasnodar og Zenit eru með 20 stig í tveimur efstu sætunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert