Ungstirnið getur sett nýtt met

Ansu Fati.
Ansu Fati. AFP

Ansu Fati, ungstirnið í liði Spánarmeistara Barcelona, getur í kvöld orðið yngsti markaskorarinn í Meistaradeildinni takist honum að finna netmöskvana þegar Barcelona sækir Borussia Dortmund heim.

Fati, sem er frá Guinea-Bissau, er 16 ára og 321 dags gamall og er á sínu fyrsta tímabili með aðalliði Börsunga. Hann hefur heldur betur slegið í gegn en hann hefur skorað tvö mörk og gefið eina stoðsendingu í þremur deildarleikjum með liðinu.

Hann er þegar kominn í metabækurnar en hann er yngsti markaskorari frá upphafi á Camp Nou og hann varð yngsti leikmaðurinn til að að skora og gefa stoðsendingu í sama leiknum í spænsku 1. deildinni sem hann gerði í 5:2 sigri gegn Valencia um síðustu helgi.

Í kvöld getur hann svo bætt einu meti við takist honum að skora. Yngsti markaskorari í Meistaradeildinni er Peter Ofori-Quaye en hann var 17 ára og 195 daga gamall þegar hann skoraði fyrir Olympiakos á móti Rosenborg árið 1997.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert