Græddi peninga á þrennu sonar síns

Erling Braut Håland fagnar einu af þremur mörkum sínum.
Erling Braut Håland fagnar einu af þremur mörkum sínum. AFP

Alf-Inge Håland var ekki svo hissa á því að sonur hans, Erling Braut Håland, skyldi ná að skora þrennu í sínum fyrsta leik í Meistaradeildinni í fótbolta.

Hinn 19 ára gamli Erling gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í 6:2 sigri Salzburg gegn Genk í fyrrakvöld og varð þar með yngsti leikmaðurinn til að skora þrennu í sínum fyrsta leik í Meistaradeildinni.

Karl faðir hans, sem á árum áður lék með Nottingham Forest, Leeds og Manchester City, veðjaði 200 norskum krónum um að Erling myndi gera þrennu í leiknum.

„Ég veðja af og til. Ég er enginn stór gamblari en ég geri það stundum á Norsk Tipping. Ég veðjaði á eitt, tvö og þrjú mörk og það gekk upp. Ég veðjaði 200 krónum að hann skoraði þrjú mörk og fékk 3.700 krónur,“ sagði Alf-Inge í viðtali við TV2 í Noregi en upphæðin jafngildir rúmlega 51 þúsund íslenskum krónum sem hann fékk í vasann.

Alf-Inge útilokar ekki að sonur hans muni í framtíðinni spila með Manchester United en frammistaða stráksins í fyrrakvöld var stór og mikil auglýsing fyrir hann.

„Núna er hann í Salzburg og er einbeittur. Ég held að flesta leikmenn dreymi um að spila í ensku úrvalsdeildinni. Það er enginn vafi að enska úrvalsdeildin er aðlaðandi fyrir hann. En hvort hann fær tækifæri þar verður tíminn að leiða í ljós,“ sagði Alf-Inge.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert