Þrjátíu þúsund börn fá að mæta á leikinn

Rúmenar fagna marki gegn Færeyingum í Þórshöfn um helgina.
Rúmenar fagna marki gegn Færeyingum í Þórshöfn um helgina. AFP

Þrjátíu þúsund börn 14 ára og yngri verða á Arena Nationala-leikvanginum í Búkarest annað kvöld þegar Rúmenar taka á móti Norðmönnum í undankeppni Evrópumóts landsliða í knattspyrnu.

Evrópska knattspyrnusambandið beitti Rúmena refsingu í síðasta mánuði eftir að stuðningsmenn rúmenska landsliðsins fóru yfir strikið í leikjunum gegn Spáni og Möltu þar sem þeir voru með kynþáttaníð, hentu ýmsu lauslegu inn á völlinn og skutu upp flugeldum. Rúmenska knattspyrnusambandið var í kjölfarið sektað og var gert að spila næstu tvo heimaleiki sína í undankeppninni án áhorfenda.

UEFA hefur nú heimilað rúmenska knattspyrnusambandinu að 30.000 börn 14 ára og yngri megi koma á leikinn gegn Norðmönnum en Arena Nationala-leikvangurinn tekur 55.000 áhorfendur.

Rúmenar eru í þriðja sæti í riðlinum með 13 stig, eru stigi á eftir Svíum, en Norðmenn eru í fjórða sætinu með 10 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert