Úkraína fimmta landið á EM

Leikmenn Úkraínu fagna sæti á EM í Kiev í kvöld.
Leikmenn Úkraínu fagna sæti á EM í Kiev í kvöld. AFP

Úkraína tryggði sér sæti í lokakeppni EM 2020 í knattspyrnu í kvöld þegar liðið vann 2:1-sigur gegn Portúgal á Ólympíuleikvangingum í Kiev í Úkraínu í kvöld. Roman Yaremchuk kom Úkraínu yfir á 6. mínútu og Andriy Yarmolenko tvöfaldaði forystu Úkraínu á 27. mínútu.

Cristiano Ronaldo minnkaði muninn fyrir Portúgal með marki úr vítaspyrnu á 72. mínútu en þetta var mark númar 700 á ferlinum hjá fyrirliða Portúgals. Lengra komust Portúgalar hins vegar ekki og Úkraína fagnaði sigri.

Í hinum leik B-riðils vann Serbía 2:1-sigur gegn Litháen á LFF-vellinum í Vilnius. Aleksander Mitrovic skoraði tvívegis fyrir Serba í upphafi síðari hálfleiks en Donatas Kazlauskas minnkaði muninn fyrir Litháen á 79. mínútu.

Úkraína er með 19 stig eftir sjö leiki í efsta sæti riðilsins en Portúgal kemur þar á eftir með 11 stig eftir sex leiki. Serbar eru í þriðja sætinu með 10 stig eftir sex leiki, Lúxemborg er með 4 stig og Litháen er á botni riðilsns með 1 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert