Ljúkum mikilvægu verki þegar við vinnum Ísland

Senol Gunes, landsliðsþjálfari Tyrkja.
Senol Gunes, landsliðsþjálfari Tyrkja. AFP

Þegar tveimur umferðum er ólokið í riðli Íslands í undankeppni EM bendir allt til þess að Tyrkir og Frakkar hafni í tveimur efstu sætunum og tryggi sér þar með farseðilinn á EM.

Tyrkirnir stigu risastórt skref í átt að EM með því að gera 1:1 jafntefli við heimsmeistara Frakka á Stade de France í París í gærkvöld og með þeim úrslitum eru Tyrkir í efsta sæti með 19 stig eins og Frakkar en Íslendingar eru í þriðja sætinu með 15 stig.

„Við mættum sterkum andstæðingum sem léku betur en við. Ég vil þakka öllum leikmönnum fyrir framlag þeirra og stuðninginn sem við fengum. Við erum ánægðir að hafa fengið fjögur stig á móti sterku liði eins og Frakkar eru með og vera í toppsætinu,“ sagði Senol Gunes, landsliðsþjálfari Tyrkja, eftir leikinn í gærkvöld.

Tyrkir taka á móti Íslendingum í Istanbul 14. nóvember og með stigi í þeim leik tryggja Tyrkir sér sæti á EM.

„Við munum ljúka mikilvægu verki þegar við vinnum Ísland. Við þurfum að minnsta kosti jafntefli á móti Íslandi en ætlum að vinna,“ sagði Gunes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert