Frábært að spila fyrir Heimi aftur

Birkir Bjarnason í leiknum gegn Frökkum á föstudag.
Birkir Bjarnason í leiknum gegn Frökkum á föstudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég heyrði í þeim fyrst fyrir tveimur vikum síðan og ég hafði áhuga á að kíkja á þetta. Ég skoðaði aðstæður og heyrði hvað þeir voru að pæla í og mér leist ágætlega á það og sló til,“ sagði Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í fótbolta, um þá ákvörðun að ganga í raðir Al-Arabi í Katar á þriggja mánaða samningi.

„Aðstæðurnar hérna eru mjög flottar. Æfingaaðstöðurnar eru frábærar og alls ekki slæmt að búa hérna,“ sagði Birkir. Miðjumaðurinn komst að samkomulagi við Aston Villa um riftun á samningi sínum í ágúst og hefur hann því verið án félags í rúma tvo mánuði. Honum fannst það ekki endilega of langur tími. 

„Nei, ekki þannig séð. Ég var alveg að njóta mín heima í smá fríi. Það var langt síðan ég fékk gott frí. Það er hins vegar gott að vera kominn í lið.“

Heimir Hallgrímsson og Birkir Bjarnason ræða saman á HM í …
Heimir Hallgrímsson og Birkir Bjarnason ræða saman á HM í Rússlandi. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Samningurinn er til þriggja mánaða og er Birkir opinn fyrir því að spila áfram í Katar, að honum loknum. 

„Ég ætla mér að spila fótbolta, koma mér í liðið og sýna mig. Svo sjáum við hvert framhaldið verður á því. Það er alltaf í stöðunni að vera lengur í Katar, hvort sem það er í þessu liði eða einhverju öðru. Ég geri mitt í þessa þrjá mánuði og svo sjáum við hvað gerist.“

Heimir Hallgrímsson er þjálfari Al-Arabi. Birkir spilaði lengi undir stjórn Heimis hjá landsliðinu og fóru þeir m.a saman á EM í Frakklandi og HM í Rússlandi. 

„Ég var með Heimi í einhver sex ár og þekki hann mjög vel og hvernig hann vill spila. Það er frábært að spila fyrir hann aftur og það er þægilegt fyrir mig,“ sagði Birkir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert