Það er ekkert að Ronaldo

Cristiano Ronaldo sæll og glaður á æfingu portúgalska landsliðsins.
Cristiano Ronaldo sæll og glaður á æfingu portúgalska landsliðsins. AFP

Einn af liðsfélögum Cristiano Ronaldo í portúgalska landsliðinu í knattspyrnu segir hann sé ekkert meiddur ólíkt því Maurizio Sarri þjálfari Juventus lét hafa eftir sér.

Sarri hefur tekið Ronaldo af velli í síðustu tveimur leikjum Juventus. Það hefur ekki farið vel í stórstjörnuna og eftir að hafa verið kippt út af eftir 55 mínútur í leiknum á móti AC Milan strunsaði Ronaldo beint inn í búningsklefa og lét sig hverfa frá leikvanginum áður en leiknum lauk. Eftir leikinn sagði Sarri að Ronaldo gengi ekki alveg heill til skógar.

Portúgalar eru að búa sig undir leiki á móti Litháen og Luxemborg en þeir eru í harðri baráttu við Serba um að tryggja sér sæti á EM. Úkraínumenn eru búnir að tryggja sér sigur í riðlinum, eru með 19 stig, Portúgalar 11 og Serbar 10.

„Ég er ekki með læknagráðu en hann leit vel út fyrir mér. Það mikilvægasta er að hann er hér því hann er bestur í öllum heiminum,“ sagði Goncalo Paciencia, leikmaður portúgalska landsliðsins, við portúgalska blaðið Bola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert