1,3 milljarðar fyrir að komast á EM - 200 milljónir fyrir hvern sigur

Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn heimsmeisturum Frakka.
Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn heimsmeisturum Frakka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er til mikils að vinna fyrir Knattspyrnusamband Íslands ef karlalandsliðinu tekst að tryggja sér sæti í úrslitakeppni EM á næsta ári en Ísland fer í umspil um sæti í lokakeppninni í mars.

Liðin 24 sem tryggja sér farseðilinn á EM fá sem svarar 1,3 milljörðum íslenskra króna en 23% hækkun hefur orðið á greiðslum til liðanna sem komast á EM frá knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, frá því á Evrópumótinu í Frakklandi fyrir fjórum árum þar sem Ísland tók þátt í og var með á sínu fyrsta stórmóti.

Liðin sem komast áfram upp úr riðlinum fá til viðbótar 275 milljónir króna. Fyrir að komast í átta liðin fá liðin um 438 milljónir króna og 676 milljónir króna fyrir að komast í undanúrslitin. Sigurliðið á EM kemur til að fá 1,4 milljarða króna og silfurliðið fær 950 milljónir króna.

Fyrir hvern sigur á EM fá liðin um 200 milljónir króna og fyrir jafntefli 100 milljónir. Evrópumeistararnir geta því fengið 4,7 milljarða króna ef þeim tekst að vinna alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert