Alfreð ekki meira með á árinu

Alfreð Finnbogason
Alfreð Finnbogason Ljósmynd/Augsburg

Þýska knattspyrnuliðið Augsburg hefur staðfest að landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason muni ekkert spila meira með liðinu á þessu ári.

Alfreð varð fyrir því óláni að fara úr axlarlið snemma leiks í viðureign Íslendinga og Tyrkja í undankeppni EM í Istanbul í síðustu viku og hefur verið í meðferð hjá sjúkrateymi þýska liðsins.

„Meiðsli koma aldrei á réttum tíma. Því miður hef ég verið óheppinn undanfarin ár en síðustu vikur hefur mér liðið mjög vel. Ég mun gera mitt besta til að búa mig undir seinni hluta tímabilsins eftir vetrarfríið,“ segir Alfreð á heimasíðu Augsburg.

Alfreð hefur skorað tvö í níu leikjum með Augsburg í þýsku Bundesligunni á tímabilinu. Hann kemur til með að missa af næstu sex leikjum liðsins en síðasti leikur þess fyrir vetrarhlé verður 21. desember. Fyrsti leikurinn eftir vetrarhléið er heimaleikur á móti Borussia Dortmund þann 18. janúar og ef allt gengur að óskum í bataferlinu verður Alfreð klár í þann slag.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert