Bæjarar horfa til Pochettino

Mauricio Pochettino.
Mauricio Pochettino. AFP

Þýska meistaraliðið Bayern München er sagt hafa mikinn áhuga á að fá Mauricio Pochettino til taka við þjálfun liðsins en Pochettino fékk reisupassann frá enska úrvalsdeildarliðinu Tottenham í gærkvöld.

Bayern München rak á dögunum Króatann Niko Kovac úr starfi þjálfara og var Hansi Flick ráðinn til að stýra liðinu til bráðabirgða.

Þýskir fjölmiðlar greina frá því að það sé mikill áhugi hjá forráðamönnum Bayern að fá Pochettino til liðs við sig en það myndi ekki gerast fyrr í sumar. Á meðan myndi Argentínumaðurinn setjast á skólabekk og læra þýsku.

Þýska blaðið Bild segir að Hasan Salihamidzic, íþróttastjóri Bayern München, sé mikill aðdáandi Pochettino en þess má geta að Tottenham steinlá 7:2 fyrir Bayern München í riðlakeppni Meistaradeildarinnar fyrr á þessu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert