Þá spilum við ekki fótbolta

Georginio Wijnaldum vakti sérstaklega athygli á kynþáttaníðinu.
Georginio Wijnaldum vakti sérstaklega athygli á kynþáttaníðinu. AFP

Leikmenn í tveimur efstu karladeildum hollensku knattspyrnunnar ætla ekki að aðhafast neitt á fyrstu mínútunni í leikjum komandi helgar.

Eftir að flautað verður til leikjanna munu þeir ekki hreyfa sig fyrr en mínúta er liðin. Einni mínútu verður bætt aukalega við uppbótartíma fyrri hálfleiks til að jafna þetta út.

Á markatöflum leikvanganna munu birtast skilaboðin: „Kynþáttaníð? Þá spilum við ekki fótbolta.“

Með þessu ætla leikmennirnir að mótmæla kynþáttaníði en alvarlegt atvik átti sér stað í leik milli Excelsior og Den Bosch í B-deildinni um síðustu helgi. Ahmad Mendes Moreira, leikmaður Excelsior og liðsfélagi Elíasar Más Ómarssonar, varð þá fyrir ítrekuðu kynþáttaníði frá hópi stuðningsmanna Den Bosch.

Leiknum var hætt eftir hálftíma en þá stöðvaði dómarinn leikinn og gekk af velli ásamt leikmönnum liðanna.

Fjölmargir þekktir hollenskir knattspyrnumenn hafa fordæmt framferði stuðningsmannanna, m.a. Memphis Depay, Georgio  Wijnaldum og Frenkie de Jong. Tveir þeir síðarnefndu fögnuðu marki Wijnaldums fyrir Holland gegn Eistlandi í undankeppni EM á þriðjudaginn með því að benda á húðlit sinn.

Hollensk knattspyrnuyfirvöld eru með atvikið til rannsóknar og þá hefur Den Bosch beðið Moreira sérstaklega afsökunar á því að hafa lýst því yfir til að byrja með að leikmaðurinn hefði misskilið „krákuhljóð“ stuðningsmannanna og haldið að þau væru kynþáttaníð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert