Sá elsti til að skora þrennu

Joaquín fagnar.
Joaquín fagnar. AFP

Real Betis vann 3:2-sigur á Athletic Bilbao í spænsku 1. deildinni í fótbolta í dag. Hinn 38 ára gamli Joaquín skoraði þrennu fyrir Betis og varð í leiðinni elsti leikmaður sögunnar til að skora þrennu í efstu deild Spánar. 

Joaquín var ekki lengi að láta af sér kveða, því hann skoraði öll mörkin á fyrstu 20 mínútum leiksins, en það fyrsta kom strax eftir tvær mínútur. 

„Þetta er fyrsta þrennan sem ég hef skorað og örugglega sú síðasta,“ sagði leikmaðurinn við fjölmiðla eftir leik. Alfredo Di Stefano átti áður metið en hann var 37 ára og 255 daga gamall er hann skoraði þrennu fyrir Real Madríd árið 1964. 

„Ég hef aldrei verið mikill markaskorari, svo ég er mjög stoltur að skora þrennu. Það er ekki auðvelt á mínum aldri,“ bætti hann við. Joaquín er 38 ára og 140 daga gamall. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert