Hólmar á toppnum í búlgarska fótboltanum

Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Levski.
Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Levski. Ljósmynd/Levski Sofia

Hólmar Örn Eyjólfsson landsliðsmaður í knattspyrnu er besti leikmaður búlgörsku A-deildarinnar það sem af er tímabilinu samkvæmt tölfræðiútreikningum InStat.

Hólmar, sem leikur með Levski Sofia, er stigahæstur allra leikmanna í deildinni á tímabilinu og það þó hann hafi misst af fyrstu fimm umferðunum þegar hann var að jafna sig eftir að hafa slitið krossband í hné seint á síðasta ári.

Í kjölfarið kom hann mjög sterkur inn í lið Levski og þótt Hólmar leiki sem miðvörður hefur hann skorað þrjú mörk í fjórtán leikjum í deildinni á tímabilinu.

Levski á þrjá af fjórum bestu leikmönnum deildarinnar samkvæmt InStat en varnarmaðurinn Ivan Goranov er í þriðja sæti og framherjinn Paulinho í fjórða sæti á listanum yfir þá bestu.

Levski er í öðru sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir meistaraliðinu Ludogorets.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert