Njósnararnir fjölmennir í alpaborginni

Erling Braut Haaland í baráttu við Dejan Lovren varnarmann Liverpool …
Erling Braut Haaland í baráttu við Dejan Lovren varnarmann Liverpool í leiknum í gærkvöld. AFP

Óhætt er að segja að norski knattspyrnumaðurinn Erling Braut Haaland hafi verið undir smásjánni í gærkvöld þegar lið hans Salzburg tók á móti Liverpool í Meistaradeild Evrópu.

Samkvæmt Sky Sports voru „njósnarar“ frá um 40 félögum víðs vegar að úr Evrópu mættir á leikinn til að skoða þennan 19 ára gamla markaskorara, sem átti frekar erfitt uppdráttar í leiknum og tókst í fyrsta skipti ekki að skora mark í Meistaradeildarleik. Hann gerði átta mörk í hinum fimm leikjum austurrísku meistaranna í riðlakeppninni.

Liverpool vann leikinn 2:0 og er komið í 16-liða úrslit en Salzburg hefði slegið Evrópumeistarana út með sigri í leiknum.

Marcel Bout, yfirnjósnari Manchester United, er sérstaklega nefndur til sögunnar hjá Sky Sports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert