Reyndu að saga lappirnar af Zlatan

Zlatan Ibrahimovic stillir sér upp fyrir framan styttan frægu við …
Zlatan Ibrahimovic stillir sér upp fyrir framan styttan frægu við afhjúpun hennar í október. AFP

Knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic er ekki vinsælasti maðurinn í heimabæ sínum Malmö þessa dagana. Zlatan keypti fjórðungshlut í sænska knattspyrnufélaginu Hammarby í lok nóvember en kaupin vöktu ekki mikla lukku hjá stuðningsmönnum Malmö. 

Í október á þessu ári var bronsstytta af Zlatan afhjúpuð fyrir utan heimavöll Malmö en þúsundir stuðningsmanna mættu til þess að verða vitni að því þegar styttan var afhjúpuð. Styttan er engin smásmíði en hún er 2,7 metrar á hæð.

Eftir að tilkynnt var um kaup Zlatan á Hammarby hefur styttan hins vegar orðið reglulega fyrir alls kyns árásum. Í lok nóvember var kveikt í styttunni og í gær reyndu óprúttnir aðilar að fella hana með því að saga af henni lappirnar. 

Það gekk hins vegar ekki enda styttan kirfilega fest niður en stuðningsmenn Malmö hafa verið afar duglegir við að úthúða sænska framherjanum að undanförnu. Zlatan er án félags eftir að samningur hans við LA Galaxy rann út en hann hefur meðal annars verið orðaður við AC Milan að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert