Þýsku liðin með forskot í slagnum um strákinn?

Erling Braut Haaland er eitt heitasta nafnið á evrópska fótboltamarkaðnum …
Erling Braut Haaland er eitt heitasta nafnið á evrópska fótboltamarkaðnum um þessar mundir. AFP

Norðmaðurinn eftirsótti Erling Braut Haaland hefur þegar heimsótt þýsku félögin Dortmund og RB Leipzig en á eftir að setjast niður með fulltrúum Manchester United og Juventus áður en hann tekur endanlega ákvörðun um framtíðina.

Þetta segir enska blaðið The Guardian um stöðuna hjá þessum 19 ára gamla sóknarmanni sem skoraði 8 mörk fyrir Salzburg í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en mistókst í fyrsta sinn að gera mark í keppninni þegar lið hans tapaði fyrir Liverpool á þriðjudagskvöldið.

Samkvæmt The Guardian sækjast bæði Dortmund og RB Leipzig hart eftir því að fá Haaland til sín í janúarmánuði en í þeirri baráttu stendur Leipzig-liðið ágætlega að vígi þar sem eigendur þess eru þeir sömu og hjá Salzburg.

Haaland er með klásúlu í samningi sínum um að hann geti farið frá Salzburg fyrir 25 milljónir evra en talið er að Austurríkismennirnir gætu fengið allt að 60 milljónir evra fyrir hann, ekki síst ef áhugasömustu félögin fara að reyna að yfirbjóða hvert annað.

The Guardian segir að forgangsmál hjá Norðmanninum sé að semja við félag þar sem hann eigi mesta möguleika á að spila sem mest. Hans nánasta fjölskylda mun hafa mestar áhyggjur af því að hann myndi ekki spila mikið ef niðurstaðan yrði sú að hann færi til landa síns Ole Gunnars Solskjærs hjá Manchester United og þyrfti að ýta út Rashford eða Martial, eða lenda í baráttu við Ronaldo, Higuaín og Dybala hjá Juventus.

Juventus og United eru hins vegar sögð standa vel að vígi því umboðsmaðurinn Mino Raiola sé í traustu sambandi við bæði félögin en hann sér um samningamál Haalands. Á báðum stöðum sé girnilegur fimm ára samningur í boði.

Haaland hefur skorað 28 mörk í 22 leikjum fyrir Salzburg á þessu keppnistímabili en félagið keypti hann af Molde í janúar á þessu ári fyrir 9 milljónir evra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert