Brescia staðfestir komu Birkis

Birkir Bjarnason er kominn til Ítaliu.
Birkir Bjarnason er kominn til Ítaliu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birkir Bjarnason, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, er genginn til liðs við ítalska A-deildarfélagið Brescia en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í dag. Birkir kemur til félagsins á frjálsri sölu og skrifar hann undir átján mánaða samning við ítalska félagið. 

Fréttir bárust af því í fyrradag að Birkir væri á leið til Brescia en hann hefur verið sterklega orðaður við Genoa á Ítalíu eftir að samningur hans við katarska úrvalsdeildarfélagið Al-Arabi rann út um áramótin síðustu.

Þessi 31 árs gamli miðjumaður þekkir ítölsku A-deildina vel eftir að hafa spilað með bæði Pescara og Sampdora á árunum 2012 til ársins 2014. Hann á að baki 38 leiki í ítölsku A-deildinni, 24 fyrir Pescara og 14 fyrir Sampdoria, og er næstleikjahæsti Íslendingurinn í deildinni á eftir Emil Hallfreðssyni.

Brescia er áttunda atvinnumannaliðið sem Íslendingurinn semur við en hann hefur spilað fyrir Viking, Bodø/Glimt. Standard Liége, Pescara, Sampdoria, Basel, Aston Villa og Al-Arabi á sínum ferli sem spannar yfir sextán ár.

Brescia er í miklum vandræðum í ítölsku A-deildinni en liðið er með 14 stig í nítjánda sæti deildarinnar, því næstneðsta. Brescia er tveimur stigum frá öruggu sæti þegar mótið er hálfnað á Ítalíu en Genoa er í átjánda sætinu með 14 stig líka.

Þá er Birkir lykilmaður í íslenska landsliðinu en hann spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2010. Alls hefur Birkir spilað 84 landsleiki fyrir Íslands þar sem hann hefur skorað 13 mörk en hann var í EM-hóp Íslands árið 2016 og HM-hóp Íslands árið 2018. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert