Mæta sterkari mótherjum í Kaliforníu í kvöld

Pablo Punyed er mótherji íslenska landsliðsins í kvöld.
Pablo Punyed er mótherji íslenska landsliðsins í kvöld. mbl.is/Hari

El Salvador er í fyrsta skipti andstæðingur íslensks knattspyrnulandsliðs í kvöld en vináttulandsleikur karlalandsliða þjóðanna hefst í Carson í Kaliforníu á miðnætti að íslenskum tíma.

Leikur liðanna fer fram á LA Galaxy Stadium, heimavelli Los Angeles Galaxy sem leikur í bandarísku MLS-deildinni og skartaði m.a. Zlatan Ibrahimovic á síðasta tímabili.

El Salvador hefur lengi verið eitt af sterkari landsliðum Norður- og Mið-Ameríku og hefur tvívegis komist í lokakeppni HM, árin 1970 og 1982. Landslið þjóðarinnar er í 69. sæti á heimslista FIFA sem stendur, er sjötta sterkasta liðið í þessum heimshluta, á eftir Mexíkó, Bandaríkjunum, Kostaríka, Jamaíka og Hondúras, en er næst fyrir ofan Kanada sem Ísland vann einmitt 1:0 aðfaranótt fimmtudags í Irving í Kaliforníu.

Heimavöllur LA Galaxy í borginni Carson þar sem Ísland og …
Heimavöllur LA Galaxy í borginni Carson þar sem Ísland og El Salvador mætast í kvöld.

El Salvador var sigursælt á árinu 2019 og vann þá tíu af fjórtán landsleikjum sínum. Margir voru reyndar gegn lægra skrifuðum þjóðum í nágrenninu en athyglisverðasti sigurinn er 2:0 gegn Perú, sem Ísland tapaði fyrir í aðdraganda heimsmeistaramótsins 2018.

Rétt eins og Íslendingar eru El Salvadorar ekki með sitt sterkasta landslið í þessum leik. Þeir tefla fram sex leikmönnum sem léku með liðinu í lokakeppni Gullmóts Norður- og Mið-Ameríku síðasta sumar. Tveir þeirra spila í bandarísku MLS-deildinni, miðjumennirnir Darwin Cerén sem hefur spilað 43 landsleiki og leikur með Houston Dynamo og Andrés Flores sem hefur leikið 57 landsleiki og leikur með Portland Timbers.

Þeir eru reyndustu leikmenn liðsins ásamt varnarmanninum Alexander Mendoza sem leikur með Santa Tecla í heimalandinu og á 37 landsleiki að baki.

Íslandsmeistarinn í liði El Salvador

Íslendingar þekkja einn leikmann El Salvador mætavel. Það er KR-ingurinn Pablo Punyed sem hefur búið og leikið á Íslandi undanfarin sjö ár. Eftir góða frammistöðu með KR á síðasta ári þar sem hann fagnaði Íslandsmeistaratitlinum vann hann sér sæti í landsliði El Salvador á nýjan leik í haust eftir eins árs fjarveru og skoraði einmitt í síðasta leik ársins, þegar liðið vann 2:0 sigur á Dóminíska lýðveldinu í Þjóðadeild Norður- og Mið-Ameríku 19. nóvember.

Pablo lék þar sinn 23. landsleik en hann er aðeins annar tveggja landsliðsmanna El Salvador síðustu ár sem spilar í Evrópu. Meirihluti leikmanna landsliðsins spilar með félagsliðum í heimalandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert