Hannes á sigurbraut og með nýjan samning

Hannes Þ. Sigurðsson með forráðamönnum Deisenhofen.
Hannes Þ. Sigurðsson með forráðamönnum Deisenhofen.

Hannes Þ. Sigurðsson hefur skrifað undir nýjan samning sem þjálfari þýska knattspyrnuliðsins Deisenhofen sem hefur átt mikilli velgengni að fagna undir hans stjórn síðustu átján mánuðina.

Hannes tók við liði Deisenhofen sumarið 2018 en það er frá bænum Oberhaching í Bæjaralandi, skammt sunnan við München, og var í sjöttu efstu deild Þýskalands. Á síðasta tímabili vann liðið sig upp um deild með 73 stig og markatöluna 73:34 í 34 leikjum og leikur í vetur í Bayernliga — suður — sem er hluti af Oberligunni, fimmtu efstu deildinni í Þýskalandi.

Þar hefur liðið líka verið á miklu flugi og er nú í öðru sæti eftir 22 umferðir af 34, hefur fengið 41 stig í 21 leik, en takist liðinu að halda sér þar fer það í umspil um sæti í þýsku D-deildinni þar sem mörg atvinnulið spila.

Netmiðillinn Merkur fjallar um Hannes og velgengni liðsins og þar segir framkvæmdastjóri Deisenhofen, Alexander Schleicher, að mikil ánægja sé í félaginu með störf Hannesar og aðstoðarþjálfara hans og með að búið sé að framlengja samning Íslendingsins til loka tímabilsins 2020-21.

Árangur liðsins þykir eftirtektarverður, ekki síst í ljósi þess að þótt liðið hafi farið upp um deild fyrir þetta tímabil hafi það aðeins bætt við sig tveimur nýjum leikmönnum og teflt fram fimm strákum úr U19 ára liði félagsins.

Vetrarfrí er í neðri deildunum í Þýskalandi fram í byrjun mars en þá hefst lokaspretturinn með stórleik Deisenhofen og Pipinsried en síðarnefnda liðið  er með 19 stiga forystu á toppi riðilsins.

Hannes er 36 ára gamall og lagði sjálfur skóna á hilluna árið 2016 eftir feril í níu löndum þar sem hann varð m.a. fyrstur Íslendinga til að spila í efstu deildum Rússlands og Kasakstan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert