Þrettánda markið í tíu leikjum

Cristiano Ronaldo skýtur að marki Roma í leiknum í gærkvöld.
Cristiano Ronaldo skýtur að marki Roma í leiknum í gærkvöld. AFP

Cristiano Ronaldo hélt áfram að skora fyrir Juventus í gærkvöld þegar liðið lagði Roma að velli, 3:1, í átta liða úrslitum ítölsku bikarkeppninnar.

Árið 2020 hefur byrjað vel hjá Portúgalanum sem skoraði sitt sjöunda mark fyrir ítölsku meistarana frá áramótum og hann hefur nú skorað þrettán mörk í síðustu tíu leikjum liðsins.

Ronaldo kom Juventus yfir snemma leiks og þeir Rodrigo Bentancur og Leonardo Bonucci komu liðinu í 3:0 fyrir hlé en Cengiz Under lagaði stöðuna fyrir Roma í seinni hálfleik. Juventus mætir annaðhvort AC Milan eða Torino í undanúrslitum keppninnar.

Ronaldo, sem verður 35 ára eftir tvær vikur, skoraði þarna sitt fyrsta mark í ítölsku bikarkeppninni og þar með hefur hann skorað á fimmtán mismunandi mótum félagsliða á ferlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert