Féllu fyrir liði úr sömu deild og eigið varalið

Andy Kawaya, sóknarmaður Cultural Leonesa, fagnar sigrinum á Atlético með …
Andy Kawaya, sóknarmaður Cultural Leonesa, fagnar sigrinum á Atlético með stuðningsmönnum liðsins. AFP

Atlético Madrid var óvænt slegið út úr spænsku bikarkeppninni í knattspyrnu í gærkvöld þegar liðið tapaði fyrir C-deildarliðinu Cultural Leonesa eftir framlengdan leik.

Sergio Beníto skoraði sigurmarkið í framlengingu, 2:1, en Atlético hafði komist yfir í leiknum með marki frá Ángel Correa.

Þetta er í fyrsta skipti í níu ár sem Atlético tapar fyrir liði úr neðri deild í bikarkeppninni, og í fyrsta sinn sem það gerist undir stjórn Diego Simeone, en Cultural Leonesa spilar í sömu deild og varalið Atlético. Liðið er frá borginni León í norðvesturhluta Spánar og hefur leikið eitt tímabil í efstu deild en það var fyrir 65 árum.

Barcelona lenti líka í hremmingum gegn C-deildarliði en náði að knýja fram 2:1 sigur á sólareyjunni Ibiza í fyrrakvöld. Real Madrid þurfti enn fremur að hafa mikið fyrir 3:1 útisigri á C-deildarliðinu Salamanca. Dregið verður til sextán liða úrslita keppninnar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert