Var „súkkulaði“ á æfingum

Lionel Messi er mikilvægasti leikmaður Barcelona.
Lionel Messi er mikilvægasti leikmaður Barcelona. AFP

Lionel Messi, besti knattspyrnumaður heims og fyrirliði Barcelona, nýtur ákveðinna forréttinda hjá félagsliði sínu Barcelona. Argentínski sóknarmaðurinn hefur leikið með Börsungum allan sinn feril, en hann tók við fyrirliðabandinu hjá félaginu eftir að Andrés Iniesta yfirgaf félagið eftir tímabilið 2017-18.

Messi verður 33 ára gamall í júní, en hann á að baki 708 leiki fyrir Barcelona þar sem hann hefur skorað 620 mörk og lagt upp önnur 253. Hann hefur þurft að glíma við sinn skerf af meiðslum í seinni tíð en forráðamenn félagsins voru fljótir að bregðast við því, að sögn franska varnarmannsins Jean-Clair Todibo sem er á láni hjá Schalke frá Barcelona.

„Það var talað um það á síðustu leiktíð að Messi mætti alls ekki meiðast enda væri liðið í harðri toppbaráttu,“ sagði Todibo í samtali við Bild. „Félagið gerði allt til þess að koma í veg fyrir að Messi fengi högg á æfingum og hann var í raun hálfgert súkkulaði þar því það var stranglega bannað að tækla hann sem dæmi.“

„Það skal alveg viðurkennast að það var ekkert sérstaklega auðvelt að verjast honum á æfingum ef maður gat ekki tæklað hann en maður reyndi að redda sér. Ég tæklaði hann nú samt nokkrum sinnum en ég passaði mig mjög vel að meiða hann aldrei og ég fór alltaf í boltann,“ bætti hinn tvítugi Todibo við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert