Skrifaði undir í ítölsku A-deildinni

Andrea Mist Pálsdóttir er komin í ítölsku A-deildina.
Andrea Mist Pálsdóttir er komin í ítölsku A-deildina. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Knattspyrnukonan Andrea Mist Pálsdóttir er gengin til liðs við ítalska A-deildarfélagið Orobica Calcio en þetta kemur fram á Thorsport.is. Andrea Mist nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við Þór/KA síðasta haust en leikmaðurinn vildi reyna fyrir sér erlendis. 

Orobica er í tólfta og neðsta sæti ítölsku A-deildarinnar með eitt stig eftir þrettán leiki, átta stigum minna en Tavagnacco og Bari sem eru í ellefta og tíunda sæti deildarinnar. Orobica hefur tapað síðustu tólf leikjum sínum í deildinni.

Orobica er annað atvinnumannafélagið sem Andrea Mist sem við á ferlinum en á síðasta ári lék hún með austurríska A-deildarfélaginu Vorderland frá febrúar og fram í maí á láni. Hún snéri svo aftur til Íslands fyrir tímabilið í úrvalsdeild kvenna.

Andrea Mist er fædd árið 1998 en hún hefur allan sinn feril leikið með Þór/KA hér á landi. Hún á að baki 97 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 14 mörk og þá á hún að baki 3 A-landsleiki ásamt fjölda landsleikja fyrir yngri landslið Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert