„Spennandi tímar framundan“

Sara Björk Gunnarsdóttir
Sara Björk Gunnarsdóttir mbl.is/Hari

Landsliðsfyrirliðinn í knattspyrnu, Sara Björk Gunnarsdóttir, segist ætla að einbeita sér að því að vinna titla með Wolfsburg á þessu keppnistímabili en kemur að því loknu til með að takast á við nýjar áskoranir með öðru liði og í nýju landi væntanlega. 

Sara hafði ýjað að því fyrr í vetur að næsta sumar gæti verið ágætur tímapunktur fyrir sig til að upplifa eitthvað nýtt í íþróttinni en í morgun gaf Wolfsburg út opinberlega að Sara myndi fara í sumar.

Sara Björk Gunnarsdóttir í Evrópuleik með Wolfsburg á Akureyri.
Sara Björk Gunnarsdóttir í Evrópuleik með Wolfsburg á Akureyri. mbl.is/Þórir Tryggvason

„Nú er þetta staðfest. Eftir fjögur tímabil hef ég tekið þá ákvörðun að færa mig um set í sumar. Ég einbeiti mér hins vegar að því að vinna alla titla sem í boði eru með Wolfsburg í ár og klára tímabilið með stæl. Ég hef verið í fjögur ár í Þýskalandi og margt gerst á þeim tíma. Ég hef skilað mínu og upplifað margt með Wolfsburg. Ég held að þetta sé góður tímapunktur til að prófa eitthvað nýtt og fara í aðrar krefjandi aðstæður,“ sagði Sara þegar mbl.is sló á þráðinn til hennar í dag. 

Spurð um hvort önnur lið séu þegar farin að sýna henni áhuga segir Sara svo vera en ætlar ekki að tjá sig um það sérstaklega. „Ég hef skoðað þessi mál og velt fyrir mér kostum og göllum. Það eru spennandi tímar framundan en yfirstandandi tímabil er bara hálfnað og ég vil einbeita mér að spilamennskunni með Wolfsburg,“ sagði Sara sem hefur undanfarin ár verið með þýskan umboðsmann sem gætir hennar hagsmuna. 

Sara verður þrítug í september og hefur leikið erlendis frá árinu 2011. Var hjá Malmö og Rosengård frá 2011 - 2016 þegar hún færði sig til Wolfsburg. Hefur hún bæði orðið sænskur og þýskur meistari auk þess að leika til úrslita í Meistaradeild Evrópu með Wolfsburg. Sara hlaut sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 2018. Hún er uppalin í Haukum en lék einnig með Breiðabliki hérlendis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert