Rúnar Alex aftur í markið hjá Dijon

Rúnar Alex Rúnarsson markvörður Dijon.
Rúnar Alex Rúnarsson markvörður Dijon. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rúnar Alex Rúnarsson verður á ný aðalmarkvörður franska liðsins Dijon næstu mánuðina en keppinautur hans um stöðuna, senegalski landsliðsmarkvörðurinn Alfred Gomis, meiddist illa á hné í síðasta leik og verður frá keppni í alla vega tvo til þrjá mánuði, samkvæmt frétt á heimasíðu félagsins.

Rúnar Alex var aðalmarkvörður Dijon á síðasta tímabili og spilaði þá 26 leiki í frönsku 1. deildinni. Gomis var síðan keyptur til félagsins frá SPAL á Ítalíu í sumar og hefur haft vinninginn í baráttunni við Rúnar um sæti í byrjunarliðinu. Af fyrstu 24 leikjunum í deildinni spilaði Gomis 19 leiki en Rúnar hóf leik fimm sinnum.

Hann kom síðan inn á sem varamaður í síðasta leik, í annað sinn á tímabilinu, en Gomis meiddist undir lok fyrri hálfleiks í 3:3 jafntefli gegn Nantes. Krossband í hné skaddaðist en slitnaði ekki og Senegalinn sleppur því væntanlega við uppskurð en verður frá í talsverðan tíma.

Fjórtán umferðum er ólokið í Frakklandi og viðbúið er að Rúnar Alex spili alla þá leiki sem eftir eru. Dijon á sannkallaðan stórleik fyrir höndum í kvöld þegar liðið tekur á móti meisturum París SG í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Liðið er í harðri fallbaráttu, eins og í fyrra, og er í 17. sæti af 20 liðum, einu stigi fyrir ofan Nimes sem er í umspilssæti, en fimm stigum fyrir ofan Amiens sem er í fallsæti ásamt Toulouse. París SG er með yfirburðastöðu á toppi 1. deildarinnar, tólf stigum á undan Marseille.

Næsti leikur Dijon í deildinni, og þá væntanlega með Rúnar Alex í markinu, er gegn Bordeaux á útivelli á laugardaginn kemur. Næst koma svo heimaleikur við Mónakó og útileikur við París SG þannig að liðið á heldur betur erfiða leikjadagskrá næstu vikurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert