New York með pálmann í höndunum

Brasilíumaðurinn Héber fagnar þriðja marki sínu í Kosta Ríka í …
Brasilíumaðurinn Héber fagnar þriðja marki sínu í Kosta Ríka í nótt. AFP

Guðmundur Þórarinsson og liðsfélagar hans í bandaríska knattspyrnuliðinu New York City eru í afar vænlegri stöðu eftir 5:3-sigur gegn San Carlos frá Kostaríka í Soto í Kostaríka í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Norður- og Mið-Ameríku í nótt. 

Guðmundur sat allan tímann á varamannabekk New York City í leiknum en hann gekk til liðs við félagið í lok janúar. New York City komst í 4:1 í leiknum en Héber, framherji New York City, gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í leiknum. 

Alexander Callens skoraði fjórða mark New York City og kom sínu liði í 4:1 en Marcos Mena og Omar Browns minnkuðu muninn fyrir San Carlos þegar skammt var til leiksloka. Alexandru Mitrita skoraði fimmta mark New York í uppbótartíma og kom sínu liði í afar vænlega stöðu fyrir seinni leikinn sem fer fram 26. febrúar í New York.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert