Nóg eftir af þessu einvígi

Pep Guardiola á hliðarlínunni í kvöld.
Pep Guardiola á hliðarlínunni í kvöld. AFP

„Við ætluðum okkur að vinna leikinn og það tókst. Einvígið er hins vegar aðeins hálfnað. Ef eitthvert lið getur snúið svona stöðu við, er það Real Madríd,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, varkár við BT-sjónvarpsstöðina eftir 2:1-útisigur liðsins á Real Madríd í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. 

„Við vorum betri aðilinn þegar við fengum markið á okkur. Við skoruðum svo þegar þeir voru betri, þannig er fótboltinn stundum. Ég man eftir leik á Anfield þar sem við vorum magnaðir, en þeir skoruðu úr öllum skotunum sínum, sagði Guardiola, sem fann til með Aymeric Laporte, sem fór meiddur af velli. Hann er nýbúinn að jafna sig á erfiðum meiðslum. 

„Það er mjög erfitt, sérstaklega eftir löng meiðsli. Fernandinho leysti hann af og gerði það glæsilega. Ég er mjög stoltur. Það er hins vegar nóg eftir af þessu einvígi og við verðum að halda áfram,“ sagði Guardiola. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert