Fyrrverandi Þórsmarkvörður að losna úr lyfjabanni

Joshua Wicks í leik með Þór á Akureyri.
Joshua Wicks í leik með Þór á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Bandaríski knattspyrnumarkvörðurinn Joshua Wicks, sem varði mark Þórs á Akureyri á árunum 2012 og 2013, er að ljúka afplánun á tveggja ára keppnisbanni sem hann hlaut í Svíþjóð fyrir kókaínneyslu og er klár í slaginn á ný með félagi sem hann lék áður með.

Wicks var leikmaður Sirius í sænsku úrvalsdeildinni þegar hann féll á lyfjaprófi og var settur í tveggja ára bann snemma á árinu 2018. 

Eftir dvölina á Akureyri lék hann í tvö ár með AFC Eskilstuna og hann hefur nú samið við félagið á nýjan leik. Hann má byrja að spila með því í sænsku B-deildinni upp úr miðjum apríl en missir af fyrstu þremur umferðum deildarinnar.

Joshua Wicks er 36 ára gamall og kom til Þórs sumarið 2012 frá Mariehamn í Finnlandi og lék 7 leiki með liðinu í 1. deildinni. Hann varði síðan mark Akureyrarliðsins í 14 leikjum í úrvalsdeildinni 2013. Áður lék hann með nokkrum af sterkustu liðum Bandaríkjanna eins og DC United, LA Galaxy og Portland Timbers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert