Óttast að Hólmbert missi af öllu tímabilinu

Hólmbert Aron Friðjónsson er mögulega með slitið krossband.
Hólmbert Aron Friðjónsson er mögulega með slitið krossband. Ljósmynd/Aalesund

Knattspyrnumaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson fór meiddur af velli á 22. mínútu hjá Aalesund er liðið mætti Molde í æfingaleik í dag. Hólmbert var borinn af velli og er óttast að framherjinn sé með slitið krossband.  

Greint er frá því á heimasíðu Aalesund að Hólmbert hafi meiðst á hné þegar enginn leikmaður hafi verið nærri. Hólmbert gæti því misst af öllu komandi tímabili, en hann átti stóran þátt í að tryggja Aalesund sæti í efstu deild, er liðið var með mikla yfirburði í B-deildinni á síðustu leiktíð. 

Lars Bohinen, þjálfari Aalesund, hefur miklar áhyggjur af meiðslum Hólmberts en hann sagði við Sunnmorsposten eftir leikinn að Hólmbert yrði líklega ekki með á tímabilinu og að liðið væri í miklum vandræðum vegna þessa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert