UEFA og hollenska sambandið eru eins og Trump

Marc Overmars, til vinstri, gagnrýnir UEFA og KVNB harkalega.
Marc Overmars, til vinstri, gagnrýnir UEFA og KVNB harkalega. Ljósmynd/ajax.nl

Marc Overmars, leikmaður Arsenal um árabil og núverandi stjórnarmaður Ajax í Hollandi segir að Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, og hollenska knattspyrnusambandið, KVNB, hagi sér alveg eins og Donald Trump. Hjá þeim skipti fjárhagurinn meira máli en kórónuveiran og almenn heilsa borgaranna.

Hollenska úrvalsdeildin í fótbolta liggur niðri eins og víðast hvar annars staðar vegna kórónuveirunnar en KVNB stefnir að því að koma deildinni aftur af stað snemma í júní og spila fram í ágúst, eins og markmiðið er víða í Evrópu.

Overmars er ekki sammála þessu og telur að blása eigi tímabilið af. „Hversvegna snýst allt um peninga en ekki um lýðheilsu? Ég var að vona að KVNB myndi taka sjálfstæða ákvörðun en þeir ákváðu að skýla sér á bakvið UEFA,“ sagði Overmars við De Telegraaf.

„Við erum ekki eins háðir sjónvarpspeningum hérna í Hollandi og deildirnar eru á Spáni, Englandi, Ítalíu og Þýskalandi. Ég held að stóru þjóðirnar hafi sett pressu á UEFA um að halda fótboltanum áfram, sama hvað það kostar. UEFA græðir líka á því að fótboltinn fari af stað því Meistaradeildin þýðir hundruðir milljóna evra,“ sagði Overmars og sendir skýr skilaboð:

„Ég set UEFA og KVNB á sama stall og Donald Trump - peningarnir skipta meira máli en kórónuveiran. Halló! Meira en hundrað manns láta lífið daglega í Hollandi vegna kórónuveirunnar,“ sagði Overmars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert