Veit ekki sjálfur hvað ég vil gera

Zlatan Ibrahimovic í leik með AC Milan gegn Juventus í …
Zlatan Ibrahimovic í leik með AC Milan gegn Juventus í vetur. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic segist ekki hafa hugmynd um hvað framtíðin beri í skauti sér og hvað hann geri næst en samningur hans við AC Milan á Ítalíu rennur út í sumar.

Eftir að kórónuveiran fór á fleygiferð í Mílanó og nágrenni dreif Zlatan sig heim til Svíþjóðar og hefur dvalið í Stokkhólmi síðan ásamt fjölskyldu sinni. Hann er 38 ára gamall og ætla að bíða og sjá hvernig hlutirnir þróast næstu vikur og mánuði.

„Sjáum til, ég veit ekki sjálfur hvað ég vil gera því það gerist eitthvað nýtt á hverjum degi. Hver hefði getað spáð fyrir um þessa kórónuveiru? Við verðum bara að halda áfram með lífið og njóta þess. Ekki hafa of miklar áhyggjur. Ég hef fjölskyldu til að hugsa um, ef þeim líður vel þá líður mér vel," sagði Zlatan við Svenska Dagbladet.

Hann gerði allt vitlaust í heimaborg sinni Malmö í vetur með því að gerast hluthafi í Stokkhólmsfélaginu Hammarby. Hann ætlar sér ekki að spila með Hammarby, hvað sem hann annars geri sem leikmaður.

„Með þessu vil ég læra eitthvað nýtt um fótboltann frá öðru sjónarhorni. Ég mun taka þátt á hliðarlínunni hjá félaginu, ekki innan vallar," sagði Zlatan sem á að baki  glæsilegan feril sem leikmaður Malmö, Ajax, Juventus, Inter Mílanó, Barcelona, AC Milan, París SG, Manchester United, LA Galaxy og loks aftur AC Milan síðan í byrjun þessa árs. 

Hann hefur skorað 478 mörk í 798 mótsleikjum fyrir sín félagslið á ferlinum og gerði 62 mörk í 116 landsleikjum fyrir Svíþjóð en hann er markahæsti landsliðsmaður þjóðar sinnar frá upphafi og sá sjöundi leikjahæsti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert