Búið spil í Belgíu?

Ari Freyr Skúlason er samningsbundinn Oostende í belgísku A-deildinni.
Ari Freyr Skúlason er samningsbundinn Oostende í belgísku A-deildinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Belgar hafa tekið ákvörðun um að blása knattspyrnutímabilið af en það eru fjölmiðlar þar í landi sem greina frá þessu. Knattspyrnusamband Belga hefur ekki tjáð sig um þennan orðróm en aðeins var ein umferð eftir af A-deildinni þegar ákvað var að fresta öllum leikjum vegna kórónuveirunnar sem nú herjar á heimsbyggðina.

Síðast var spilað í belgísku A-deildinni 7. mars en alls hafa 15.348 manns greinst með veiruna í Belgíu og þar af eru 1.011 látnir vegna hennar. Þá greinir belgíski miðillinn HLN frá því að Club Brugge, sem er með 70 stig og fimmtán stiga forskot á Gent á toppi deildarinnar, verði krýndir meistarar.

Í Belgíu er svokallað úrslitakeppnisfyrirkomulag og því mætast efstu sex lið deildarinnar í úrslitakeppni um meistaratitilinn, líkt og liðin í níu neðstu sætunum, mætast í keppni um hvaða lið fer niður ásamt botnliði deildarinnar. Ekkert lið mun hins vegar falla í ár, samkvæmt frétt HLN, og því sleppur Waasland-Beveren við fallið.

Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður Íslands, er samningsbundinn Oostende í belgísku A-deildinni en liðið er sem stendur í fimmtánda og næstneðsta sæti deildarinnar með 22 stig, tveimur stigum meira en Wasland-Beveren. Fari svo að deildarkeppnin verði flautuð af þá er ljóst að Ari Freyr og félagar munu leika í A-deildinni á næstu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert