Frakkar neita að borga

Ríkjandi Frakklandsmeistarar í PSG eru í fríi vegna kórónuveirunnar, líkt …
Ríkjandi Frakklandsmeistarar í PSG eru í fríi vegna kórónuveirunnar, líkt og öll önnur lið í Evrópu, nema í Hvíta-Rússlandi. AFP

Yfirmenn frönsku sjónvarpsstöðvarinnar Canal Plus greindu frá því á dögunum að þeir ætluðu sér ekki að greiða þær 110 milljónir evra sem stöðin átti að greiða á dögunum fyrir sýningarréttinn á frönsku 1. deildinni í knattspyrnu. Öllum leikjum í deildinni hefur verið frestað vegna kórónuveirunnar og óvíst er hvenær leikar hefjast að nýju. 

Samkvæmt fjölmiðlum í Frakklandi hefur áskrifendum að stöðinni fækkað mikið frá því veiran skaut fyrst upp kollinum í Frakklandi og öllum íþróttaviðburðum var aflýst. Þá hefur öll auglýsingasala dregist mikið saman en alls hafa 56.989 manns smitast af veirunni í landinu og þar af eru 4.032 látnir vegna hennar.

Þetta er fyrst og fremst mikið áfall fyrir liðin sem leika í frönsku 1. deildinni en þeirra aðaltekjulind er í gegnum sjónvarpstekjur og tekjur tengdar leikjum og seldum varningi á þeim. Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar óttast að svipað muni eiga sér stað á Englandi ef deildarkeppnin verður ekki klárað og því leggja menn þar á bæ allt kapp á að draga upp plön svo hægt sé að ljúka deildinni á farsælan hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert