Hraðmót um sænska bikarinn með fjórum Íslendingaliðum?

Kolbeinn Sigþórsson og Arnór Ingvi Traustason eiga að mætast í …
Kolbeinn Sigþórsson og Arnór Ingvi Traustason eiga að mætast í átta liða úrslitum bikarkeppninnar með AIK og Malmö. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lokaumferðirnar í sænsku bikarkeppninni í knattspyrnu gætu verið spilaðar í formi hraðmóts um leið og grænt ljós verður gefið í landinu um að keppni geti hafist á ný, samkvæmt frétt í Expressen í dag.

Átta liða úrslitin áttu að fara fram um miðjan mars og voru það fyrstu leikirnir í landinu sem frestað var vegna kórónuveirunnar. Fjögur Íslendingalið eru í hópi þeirra átta liða sem eftir eru en sænska bikarkeppnin er jafnan spiluð frá hausti til vors.

Samkvæmt Expressen er lagt til að keppnin verði kláruð á einni viku, helst í lok maí ef mögulegt er, þar sem útkljá þurfi sigurvegara vegna þess að hann fær sæti í undankeppni Evrópudeildarinnar á næsta tímabili.

Átta liða úrslitin verði leikin á sunnudegi, undanúrslitin á miðvikudegi og úrslitaleikurinn á sunnudegi. Átta liða úrslitin, hið minnsta, verði leikin án áhorfenda, og hinir leikirnir líka ef þörf krefur.

Í stórleik átta liða úrslitanna leika Arnór Ingvi Traustason og félagar í Malmö gegn Kolbeini Sigþórssyni og samherjum í AIK. Hammarby, lið Arons Jóhannssonar, mætir Gautaborg og Oskar Tor Sverrisson, sem lék sinn fyrsta landsleik fyrir Íslands hönd gegn El Salvador í janúar, leikur með Häcken sem mætir Elfsborg. Í fjórðu viðureigninni eigast við Mjällby og Falkenberg.

Keppni í sænsku úrvalsdeildunum í karla- og kvennaflokki á síðan að hefjast í byrjun júní, samkvæmt núgildandi áætlun, en hefði annars átt að fara af stað um næstu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert