Lagt til að belgíska deildin endi eins og staðan er núna

Ari Freyr Skúlason leikur í Belgíu.
Ari Freyr Skúlason leikur í Belgíu. mbl.is/ Hari

A-deildin í Belgíu verður líklega sú fyrsta af efstu deildum karla í knattspyrnu í Evrópu sem aflýsir keppninni vegna kórónuveirunnar. Stjórnarmenn deildarinnar staðfestu við fjölmiðla í dag að tillaga um það yrði lögð fyrir aðalfund 15. apríl.

Ein umferð var eftir af deildakeppninni þegar keppni var frestað auk þess sem úrslitakeppnin var eftir þar sem sex efstu liðin leika tvöfalda umferð innbyrðis. Club Brugge er með fimmtán stiga forskot á Gent þegar ellefu umferðum samtals er ólokið.

Í yfirlýsingu frá A-deildinni segir að þessi niðurstaða hafi fengist eftir ítarlega skoðun og ráðgjöf um að mjög ólíklegt væri að hægt yrði að leika með áhorfendum fyrir 30. júní, en ekki þyki ráðlegt að halda tímabilinu áfram eftir þá dagsetningu.

„Jafnvel þótt mögulegt yrði að spila án áhorfenda ber að forðast það álag sem þetta myndi hafa á heilbrigðisþjónustuna í landinu," segir í yfirlýsingunni.

Stefnt er að því að kynna hinn 15. apríl hvernig útfæra eigi hvaða lið fara upp og niður um deildir. Þar ræðst endanlega hvernig fer hjá Ara Frey Skúlasyni og samherjum í Oostende. Þeir eru í 15. og næstneðsta sæti, tveimur stigum fyrir ofan Waasland-Beveren, en neðsta liðið eftir hefðbundna deildakeppni fellur beint úr deildinni. Ef miðað verður alfarið við lokastöðuna að 29 umferðum loknum sleppur Oostende við fall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert