Breyta reglum vegna frestunar Ólympíuleikanna

Knattspyrnukeppnin á ÓL verður m.a. leikin á Miyagi-leikvanginum í Tókýó.
Knattspyrnukeppnin á ÓL verður m.a. leikin á Miyagi-leikvanginum í Tókýó. AFP

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur hækkað aldurstakmark leikmanna sem eru gjaldgengir í knattspyrnukeppni karla á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári.

Miðað hefur verið við 23 ára aldur hingað til í karlaflokki á leikunum en nú verður miðað við 24 ára aldur, eða leikmenn sem eru fæddir frá og með 1. janúar árið 1997. Þar með eru sömu leikmenn gjaldgengir og hefðu verið það á leikunum í ár.

Sextán lið taka þátt í knattspyrnukeppni karla á leikunum. Japan, Argentína, Brasilía, Frakkland, Þýskaland, Spánn, Rúmenía, Nýja-Sjáland, Egyptaland, Fílabeinsströndin, Suður-Afríka, Ástralía, Sádi-Arabía og Suður-Kórea hafa tryggt sér keppnisrétt en eftir er að leika til úrslita um tvö sæti í Norður- og Mið-Ameríku.

Í knattspyrnukeppni kvenna á ÓL er ekkert aldurstakmark þannig að þar er um A-landslið að ræða og því ná þessar breytingar ekki til hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert