Lætur spænska fjölmiðla heyra það

Luis Suarez er frá vegna meiðsla en hann tók á …
Luis Suarez er frá vegna meiðsla en hann tók á sig 70% launalækkun á dögunum vegna kórónuveirunnar. AFP

Luis Suárez, framherji spænska knattspyrnuliðsins Barcelona, er ósáttur með spænska fjölmiðla þessa dagana. Allir starfsmenn Barcelona þurftu að taka á sig launalækkun á dögunum vegna kórónuveirunnar sem nú herjar á heimsyggðina. Allt íþróttastarf innan félagsins liggur niðri og því er innkoman hjá félaginu lítil sem engin þessa dagana.

Allir starfsmenn félagsins samþykktu að taka á sig 70% launalækkun í síðustu viku en spænskir fjölmiðlar greindu frá því að leikmenn karlaliðs félagsins hafi verið á móti lækkuninni. „Það hefur verið mikið talað um launalækkanir karlaliðsins að undanförnu og það hafa verið skrifaðir hlutir í blöðin sem eru hrein og bein lygi,“ sagði Suárez í samtali við spænska fjölmiðla.

„Það hefur verið talað um skilmála sem leikmenn knattspyrnuliðs Barcelona eiga að hafa sett fram. Þá eigum við að hafa verið á móti því að skerða launin okkar um 70% á meðan aðrir innan félagsins hafi þurft að taka á sig þessa lækkun. Við gerðum allt til þess að finna lausn á málinu og vorum boðnir og búnir að taka á okkur lækkun.“

„Það var enginn leikmaður liðsins sem neitaði því að taka á sig launalækkun. Við komumst að samkomulagi strax og það voru svo fyrirliðarnir sem gengu á fund forsetans og kláruðu samningaviðræðurnar. Svona umræða getur verið særandi og það er lágmark að fólk vinni heimavinnuna sína þegar svona er skrifað,“ bætti Suárez við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert