Belgar biðja um leyfi til að enda tímabilið

Ari Freyr Skúlason spilar í Belgíu.
Ari Freyr Skúlason spilar í Belgíu. mbl.is/Hari

Belgíska knattspyrnusambandið og stjórnarmenn A-deildarinnar þar í landi hafa beðið evrópska knattspyrnusambandið að samþykja þá ákvörðun að binda enda á tímabilið vegna kórónuveirunnar.

Ein um­ferð var eft­ir af deilda­keppn­inni þegar keppni var frestað auk þess sem úr­slita­keppn­in var eft­ir þar sem sex efstu liðin leika tvö­falda um­ferð inn­byrðis. Club Brug­ge er með fimmtán stiga for­skot á Gent þegar ell­efu um­ferðum sam­tals er ólokið. Ekki er talið að hægt sé að hefja leik aftur fyrr en í fyrsta lagi í júlí og vilja forráðamen því að deildin endi eins og staðan er núna.

Belgar hafa þó ákveðið að ráfæra sig við UEFA áður en lokaákvörðun er tekin vegna þess að hún gæti haft áhrif á þátttöku belgískra liða í Evrópukeppnum á næsta tímabili. Þau gætu verið útilokuð frá Meistaradeildinni og Evrópudeildinni, fari svo að UEFA leggi ekki blessun sína yfir þessar áætlanir.

Stefnt er að því að kynna hinn 15. apríl hvernig út­færa eigi hvaða lið fara upp og niður um deild­ir. Þar ræðst end­an­lega hvernig fer hjá Ara Frey Skúla­syni og sam­herj­um í Oost­ende. Þeir eru í 15. og næst­neðsta sæti, tveim­ur stig­um fyr­ir ofan Waas­land-Bev­eren, en neðsta liðið eft­ir hefðbundna deilda­keppni fell­ur beint úr deild­inni. Ef miðað verður al­farið við lokastöðuna að 29 um­ferðum lokn­um slepp­ur Oost­ende við fall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert