Endurkoma í kortunum

Neymar mun ganga til liðs við Barcelona á nýjan leik …
Neymar mun ganga til liðs við Barcelona á nýjan leik í sumar. AFP

Neymar, landsliðsmaður Brasilíu í knattspyrnu og dýrasti leikmaður heims, mun snúa aftur til Barcelona í sumar en það eru spænskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Neymar gekk til liðs við Frakklandsmeistara PSG frá Barcelona sumarið 2017, en franska félagið borgaði 200 milljónir evra fyrir leikmanninn sem er dýrasti knattspyrnumaður heims.

Neymar er orðinn 28 ára gamall en alveg frá því hann gekk til liðs við franska félagið hefur hann verið reglulega orðaður við endurkomu til Barcelona. Þá hefur leikmaðurinn einnig verið óheppinn með meiðsli í París en þrátt fyrir það skorað 13 mörk í fimmtán leikjum í frönsku 1. deildinni á tímabilinu.

Neymar var sterklega orðaður við Barcelona allt síðasta sumar en að lokum voru forráðamenn spænska félagsins ekki tilbúnir að borga uppsett verð fyrir leikmanninn. Barcelona ætlar að losa sig við nokkra leikmenn í sumar og þá gæti skapast svigrúm til þess að fá Neymar aftur til félagsins en félagið hefur þurft að draga saman allan kostnað að undanförnu vegna kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert