Snúa aftur til æfinga á morgun

Bayern München er með fjórtán stiga forskot á toppi þýsku …
Bayern München er með fjórtán stiga forskot á toppi þýsku 1. deildarinnar þegar þrettán umferðir eru eftir af tímabilinu. AFP

Þýskalandsmeistarar Bayern München í knattspyrnu munu snúa aftur til æfinga á morgun, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér í dag. Leikmenn munu mæta til æfinga í fyrramálið og æfa saman í litlum hópum en ekkert hefur verið æft í Þýskalandi undanfarnar vikur vegna kórónuveirunnar.

„Leikmenn aðalliðs Bayern München munu snúa aftur til æfinga á morgun,“ segir í tilkynningu frá félaginu. „Þeir munu æfa saman í litlum hópum en allar æfingar verða í samráði við tilmæli þýskra stjórnvalda. Það þarf varla að taka það fram að æft verður með ýtrustu varkárni og öllum reglum verður fylgt í einu og öllu.“

„Aðeins leikmenn verða á æfingasvæði félagsins, ásamt þjálfurum, Bayern München vill áfram hvetja stuðningsmenn félagsins til þess að halda sig heima, virða fyrirmæli stjórnvalda og fara ekki út úr húsi nema í ýtrustu neyð. Það er alls ekki mælst til þess að stuðningsmenn mæti á æfingasvæðið á þessum fordæmalausu tímum,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert