Tvenns konar launalækkun á Ítalíu — eftir því hvernig tímabilið fer

Juventus og Inter léku án áhorfenda 8. mars en A-deildin …
Juventus og Inter léku án áhorfenda 8. mars en A-deildin hefur legið niðri frá 9. mars. Tólf umferðum er ólokið. AFP

Forráðamenn ítölsku knattspyrnufélaganna í A-deildinni hafa samþykkt að lækka laun þjálfara og leikmanna um 33 prósent eða 16,7 prósent, eftir því hvernig fer með yfirstandandi keppnistímabil á Ítalíu.

Forráðamennirnir komu saman á neyðar-fjarfundi í dag og í yfirlýsingu sem gefin var út eftir hann kom fram að hléið á deildinni sem orsakaðist af yfirstandandi farsótt hefði komið ítalska fótboltanum í afar erfiða stöðu og nauðsynlegt væri að skera kostnað verulega niður.

Tvær sviðsmyndir voru settar upp fyrir samtök ítalskra knattspyrnumanna sem eiga eftir að samþykkja niðurskurðinn.

Annars vegar að lækka laun leikmanna og þjálfara um þriðjung árslauna, þ.e. strika út fjögurra mánaða laun, ef ekki verði hægt að halda tímabilinu áfram.

Hins vegar að lækka um einn sjötta árslauna, þ.e. strika út tveggja mánaða laun, ef hægt verði að ljúka tímabilinu.

Hvert félag þurfi að ganga frá niðurskurðinum gagnvart sínum leikmönnum.

Nítján af tuttugu félögum deildarinnar samþykktu að fara þessa leið, öll nema meistarar Juventus sem sátu hjá því þeir höfðu þegar gengið frá samkomulagi við sína leikmenn.

Tólf umferðum er ólokið í A-deildinni þar sem Juventus er með 63 stig, Lazio 62 og Inter Mílanó 54 stig í þremur efstu sætunum. Inter á leik til góða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert