Launalækkanir í kortunum hjá Birki

Birkir í leik með Brescia í febrúar.
Birkir í leik með Brescia í febrúar. AFP

Forráðamenn ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu hafa ráðlagt félögunum sem þar leika að lækka laun leikmanna í deildinni um 33% vegna kórónuveirufaraldursins sem nú herjar á heimsbyggðina. Ítalía er það land sem hefur farið verst út úr veirunni en alls hafa 132.547 smitast þar í landi og þar af eru 16.523 látnir vegna veirunnar.

Forráðamenn A-deildarinnar hafa lagt þessa launalækkun til, fari svo að ekki takist að klára tímabilið á Ítalíu. Ef liðunum tekst hins vegar að klára tímabilið hafa forráðamenn deildarinnar lagt það til að leikmenn taki á sig 16,5% launalækkun. Það verður hins vegar að teljast ólíklegt að deildarkeppnin verði kláruð á Ítalíu.

Margir forsetar félaga í A-deildinni hafa stigið fram í fjölmiðlum að undanförnu og beinlínis hótað því að mæta ekki til leiks, fari svo að ákveðið verði að byrja spila á nýjan leik. Birkir Bjarnason, landsliðsmaður Íslands, leikur með Brescia í A-deildinni en liðið er í harðri fallbaráttu þegar tólf umferðir eru eftir af tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert